Maríanna Pálsdóttir snyrtifræðingur á Snyrtistofu Reykjavíkur segir að ekkert 12 ára barn ætti að nota sýrur á andlitið og alls ekki augnkrem. Hún segir að foreldrar þurfi að vera meðvitaðir um þetta í nýjasta pistli sínum.
Það er öllum ljóst að samfélagsmiðlar eins og Instagram og Tik Tok geta haft skaðleg áhrif á börn fyrir margar sakir. Til mín leita mæður sem hafa verulega miklar áhyggjur af snyrtivörunotkun barnungra dætra sinna. Dæturnar eru allt niður í 12 ára og farnar að nota augnkrem, sýrur og serum á andlitið svo dæmi séu tekin.
Ég spyr undantekningarlaust mæðurnar hvað valdi því að þær séu byrjaðar að nota snyrtivörur af þessum toga svona snemma. Svarið er alltaf á sömu leið. Þær sjá þetta á TikTok og Instagram þar sem áhrifavaldar eru með vörukynningar af ýmsum toga.
Þessir miðlar reyna með öllum hætti að ná til yngsta markhópsins sem mér finnst persónulega glórulaust og siðlaust. Börn eru áhrifagjörn og það er auðvelt að selja þeim hvað sem er.
Á þeim tímum sem við lifum í dag er útlitsdýrkun mikil. Staðreyndin er sú að ungum stúlkum þykir gjarnan áhugavert allt það sem við kemur kremum, förðunarvörum, útliti og þess háttar. Við því er ekki mikið hægt að gera nema þá að fræða börnin og foreldrar verða að axla ábyrgð á sínu barni. Það er gríðarlega mikilvægt að taka ekki þátt í þessari þróun og falla ekki fyrir því er sá sem auglýsir hinar ýmsu vörur á netinu og fær borgað fyrir nái til barnanna ykkar.
Það er mjög mikilvægt fyrir foreldra að skilja að börn þurfa alls ekki að nota augnkrem, serum og sýrur á húðina. Húðin er ung og óþroskuð. Bólur geta byrjað að koma á unglingsárum og það er eins eðlilegt og hugsast getur. Það er tímabil sem allir fara í gegnum, sumir eru heppnari en aðrir og fá lítið af bólum meðan aðrir fá meira. Ef þú ert foreldri og hefur áhyggjur af húð barnsins þíns þá skalt þú hiklaust leita til húðlæknis eða snyrtifræðings og fá ráðleggingar um bæði hvað er réttast að gera og hvaða húðvörur eru vænlegur kostur.
Húð-rútína eins og þetta er gjarnan kallað af yngri kynslóðinni þarf ekki að taka klukkutíma hvern dag. Mikilvægt er að hreinsa húðina kvölds og morgna með andlitshreinsi, nota gott rakakrem, skipta reglulega um koddaver og passa upp á að bera ekki óhreinindi að húðinni með því að vera með fingurna eða síman við andlitið. Þegar barnið er svo komið á unglingsárin og húðin fer að þroskast þá má kannski bæta inn kornakremi og þar með er það upptalið.
Við skulum muna að einfaldleikinn er alltaf bestur og það á líka við um húðumhirðu hvort sem þú ert barn, unglingur eða fullorðinn.